Q – Félag Hinsegin Stúdenta

Queer.is

Reynslusögur

Þegar ég var að gera mér grein fyrir því að ég væri lesbía þá las ég
mikið af reynslusögum. Mig langaði að vita hvað aðrir í mínum sporum hefðu sagt
og hver viðbrögð fólksins í kringum þau hefðu verið. Þessar sögur hjálpuðu mér
helling við að koma orðum að því hvernig mér leið. Ég bið ykkur því að endilega
deila með okkur ykkar sögum. Ef þess er óskað þá er birtum við sögurnar ykkar
nafnlaust.
-Rakel Snorradóttir

 

 

Samkynhneigð
17 ára lesbía
16 ára lesbía
14 ára lesbía
25-30 ára lesbía

Tvíkynhneigð


Trans
18 ára transkarl
17 ára transkona
19 ára transkona
Blogg hjá íslenskri transkonu


Hinsegin
18 ára hinsegin

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

17
ára lesbía

 

Þegar ég var í
grunnskóla þá hélt ég að ástæðan fyrir því að ég var ekki hrifin af neinum af
strákunum var af því að þeir voru allir svo óþroskaðir. Þegar ég skipti um
skóla í eitt ár fór ég að gera mér grein fyrir því að sú var kanski ekki
raunin. Ég fylgdist alltaf miklu meira með því sem stelpurnar í skólanum voru
að gera og mér hefði ekki getað verið meira sama um strákana í kringum mig. Það
var samt ekki fyrr en í 10. Bekk sem sem ég fór að hugsa meira út í hvað þetta
væri nú ekki eins eðlilegt og ég hélt. Það var kanski ekki normið að verða
afbrýðisöm út í strákana þegar þeir voru með stelpunni sem ég var búin að vera
að horfa á eftir.

Ég þorði samt
ekki að gera neitt í þessu þar sem ég kem úr litlum bæ og það mátti ekki anda í
áttina að einhverjum og þá vissi allur bærinn af því. Ég ákvað því að bíða með
að koma út þar til ég færi í framhaldskóla þar sem ég mundi ekki þekkja neinn
og gæti bara verið í friði með þetta. En einmitt af því að ég þekkti engan
þegar ég kom í framhaldskóla þá þorði ég ekki að segja neinum frá þessu. Ég hafði
aldrei upplifað það að svona hlutir væru í lagi. Í grunnskóla voru orðin
lessutussa og hommatittur mikið notað sem niðrunar orð og því hélt ég alltaf að
þetta væri eitthvað til að skammast sín fyrir. Ég hefði ekki getað haft meira
rangt fyrir mér. Þau tóku þessu öll voða vel og það hjálpaði mér alveg helling
við að sætta mig við mig.

Næsta sumar
byrjaði ég að koma út fyrir fjölskyldunni minni. Ég sagði pabba þetta fyrst og
honum fanst bara gott að ég hafði getað deilt þessu með honum. Systur minn
hefði ekki getað verið meira sama og spurði bara hvort hún mætti ekki halda
áfram að horfa á sjónvarpið. Síðan kom að því að segja mömmu frá þessu. Ég var
mest skelkuð við það en ég hefði ekki þurft að hafa áhyggjur. Hún sagði bara
við mig að hún, maðurinn hennar og systur hennar væru búin að ræða þennan
möguleika alveg helling og þetta kæmi henni ekki á óvart. Mikið var ég fegin,
vinir mínir hættu ekki að tala við mig og fjölskyldan mín gæti ekki verið
stolltari af mér.

Eftir að ég
kom út hef ég starfað mikið innan hinsegin samfélagsins á Íslandi og þá aðalega
hjálpað til við uppbyggingu S‘78N m.a. með málþingi, regnbogamessu,
jafningjafræðslu, og reglulegum fundum. Mér finnst mjög mikilvægt að efla
hinsegin vitund á Íslandi og hef haft mjög gaman af því að geta lagt hönd á
plóginn í þeim málefnum.

-Rakel Snorradótti, 22 ára

 

Aftur efst á síðu

 

 

 

 

16 ára lesbía

 

"Ég er
ekki alveg viss ákkúrat hvenær það rann upp fyrir mér að ég væri samkynhneigð. Ég
var lögð í einelti í grunnskóla sem að þýddi nokkurnvegin að öll mín tilvera
sem tilfinningarvera var nokkurnvegin í dvala þangað til ég byrjaði í
menntarskóla. Þegar ég hafði verið í hálft ár þar þá voru einhverjar bjöllur
byrjaðar að hringja og ég treysti besta vini mínum fyrir að ég héldi að ég væri
ekki gagnkynhneigð. Það var vinurinn sem að endaði hálfu ári seinna með að
draga mig smávegis nær skápaútgangnum með að koma með mér á Ungliðafund hjá
Samtökunum. Það varð svo til þess að ég treysti foreldrum mínum fyrir því að ég
væri að efast um kynhneigð mína. Ég hafði ekki mikinn tíma til að bíða eftir
samþykki frá þeim því að minna en tveimur mánuðum seinna flutti ég erlendis og
bjó þar í eitt ár. Svo þegar ég kom heim haustið eftir það byrjaði ég fyrst að
hitta stelpur. Ég leyndi því upphaflega fyrir öllum og eyddi næstu mánuðum í að
laumupúkast og pæla í hver fjandinn væri í gangi. Flestir af bestu vinum mínum
eru og hafa alltaf verið strákar og þá byrjaði ég hægt og hægt að gera mér
grein fyrir því að það væri ákkúrat þar sem ég vildi halda strákum og þó að mér
þætti rosalega vænt um þá þá gæti ég einfaldlega ekki séð mig fyrir mér í
sambandi með þeim. Það sem háði mér samt daldið var að ég hafði aldrei þekkt
samkynhneigðar fjölskyldur, það var enginn samkynhneigður í fjölskyldunni minni
og þarafleiðandi átti ég erfitt með að sjá fyrir mér framtíð sem samkynhneigð
manneskja. Það var síðan um vorið næstum tveimur árum eftir að ég byrjaði
upphaflega að sækja fundi hjá Samtökunum sem að mamma mín króaði mig af og
spurði hvort að ég væri ekki einfaldlega bara samkynhneigð. Og það var fremur
mikill léttir að geta bara sagt já því að ég veit ekki hvernig ég hefði sjálf
getað byrjað það samtal. Mamma mín sá svo um að segja pabba mínum og bróðir
þetta. Í nokkra mánuði fékk ég spurningar eins og „er þetta út af því að þú átt
bara strákavini“ og að kalla kærustuna mína „vinkonu“ sem að fór alltaf í
taugarnar á mér þó ég segði ekki neitt. En eftir smávegis tíma var bara eins og
ísinn bráðnaði, hlutirnir hættu að vera svona erfiðir og vandræðalegir. Og þó
að ég þurfi ennþá að hlusta á spurningar eins og „hvort er meira viðeigandi:
lessa eða lesbía?“ þá held ég að þetta sé allt að mjakast í rétta átt.
Þetta reddast ;)."

-Nafnlaus, 19 ára

 

 

Aftur efst á síðu

 

 

14
ára lesbía

 

 

Mér datt
fyrst í hug að ég ‘gæti verið lesbía’ þegar ég var átta ára gömul og var að
rölta í skólann einn haustmorguninn.
En svo bandaði ég frá mér þessari hugdettu því að hún var ‘afar tölfræðilega
ólíkleg’.
En svo leið tíminn og stelpurnar í bekknum með mér fóru að vera skotnar í hinum
og þessum.
Aldrei varð ég eitthvað hugfangin af þessum strákum, en var þess heldur
hrifnari af því að fá aðdáun stelpnanna, án þess að gera mér grein fyrir því.
En af einhverjum ástæðum þá verða stelpur bara ekkert vinsælar fyrir að gera
það sem strákar gera til þess að verða vinsælir.
Ég var sumsé óttarlega fattlaus og hélt á endanum að ég væri bara einhverskonar
núll. Það hlyti nú að hafa gerst áður! Að það væri til fólk sem hafði bara engann
‘þannig’ áhuga á öðrum.
En svo féll ég fyrir bestu vinkonu minni 13 ára gömul.
Ég kom svo hálfveginn út úr skápnum 14 ára gömul. Fyrir þessari vinkonu minni
og bróður mínum.
Bróðir minn fussaði bara og sagðist ekkert vera hissa.
En þessi vinkona mín tók mig í sátt.
Tjah… Hún reyndi nú þó nokkru sinnum að sannfæra mig seinna meir að ég HLYTI
nú í það minnsta kosti að vera EITTHVAÐ tvíkynhneigð.
En nei…. allt kom fyrir ekki.
En ég skreið þó loksins almennilega út úr skápnum þegar ég var 17 ára gömul, og
þá fyrir áeggjan þessarar stúlku.
Móðir mín varð heldur betur fyrir áfalli og tók þessu ekki nógu vel. Það var
eins og hún hefði heyrt dánarfregnir af nánum ættingja og grét og spurði í
sífellu allskonar skringilegra spurninga.
Hún kenndi sér um, hún kenndi ólukku um, hún velti fyrir sér í allskonar áttir
hvers barnið hennar hefði átt að gjalda!!!
En svo lagaðist hún með tímanum.
Ég kom síðast út fyrir föður mínum. En mig grunar að karlinn hafi nú alveg
vitað þetta.
Ég var 26 ára gömul og ætlaði loksins að fara út til útlanda og hitta á hann,
og mig langaði til þess að taka kærustuna mína með mér.
Þegar ég spurði hann hvort ég mætti kynna honum fyrir kærustunni minni, þá varð
hann bara voðalega spenntur og sagði að hún væri velkomin.

Þó sumir hafi orðið hissa, varð enginn illur. Ég er því fegin í dag að hafa
fengið gott umhverfi. Fjölskyldunni minni finnst það ósköp eðlilegt að ég skuli
vera lesbía og myndi sennilegast ekki vilja skipta mér út fyrir einn nér annan.
Ég er rosalega þakklát.
-Guðrún Mobus Bernharðs 31 legspýja

 

Aftur efst á síðu

 

25-30
ára lesbía

 

 

Ég var
þessi týpíska stelpu stelpa þegar ég var lítil, elskaði bleikt, átti óendanlegt
safn af barbie dúkkum, poný hestum og grenjaði 6.ára yfir að mamma hefði klippt
mig stutt. Ég aftur á móti lék alltaf "pabbann" eða
"kærastann" í leikjum með vinkonum mínum og var um 8.ára þegar ég og
vinkona mín fórum í leik þar sem ég get sagt með 100% vissu að ég kom mjög
ráðvillt út úr. Eftir það voru miklar pælingar í gangi hjá mér og ég var
sannfærð um að ég væri alvarlega skemmd. Ég hef alltaf verið mjög meðvituð um
sjálfa mig og hvernig fólk bregst við mér og þessar tilfinningar voru ekki
alveg að gera sig fyrir mig. Hefði ég vitað hvað væri í gangi og að þetta væri
fullkomlega eðlilegt þá held ég að öll mín unglingsár hefðu verið muuuuuun
auðveldari.

Ég spilaði
handbolta og fótbolta öll unglingsárin mín og þegar ég var 13.ára var ég
hreinlega að sálast úr ást á aðstoðaþjálfaranum mínum. Fórum í utanlandsferð
sem hún var auðvitað í og held hún sé á bókstaflega öllum ljósmyndum sem ég tók
í ferðinni.

15.ára varð
ég enn og aftur ástfangin og það af yfirmanni mínum í unglingavinnunni og gerði
ég mér far um að hitta hana utan vinnu og vera sem mest með henni í vinnunni.
Frekar en fyrri daginn var ég ekki að skilja þessar tilfinningar og var
gífurlega sár þegar ég óvart kom eitthvað skringilega við hana (óvart eða ekki
óvart) og hún hundskammaði mig… man hvað mér fannst ég ótrúlega misheppnuð og
hreinlega brengluð!!
Mööörgum árum seinna komst ég að því að þær báðar eru samkynhneigðar.

18.ára var
ég komin á þunglyndislyf sem ég hef étið síðan og barðist við brenglaða
sjálfsmynd, ofsakvíða og hreinlega niðurrifsstarfsemi á sjálfri mér. Annars hef
ég verið dugleg að skemma hreinlega samböndin sem ég er í, látið mig hverfa
þegar talað er um sambúð eða annað alvarlegt og um tíma stundaði ég það að vera
með gaurum sem ég vissi að væru aumingjar (framhjáhöld, andlegt ofbeldi
o.s.frv.). Eina sambandið sem ég hef eitthvað haldist í var með barnsföður
mínum og eigum við líka þetta yndislega barn saman.

Ég hef
alveg átt mín 3-some gegnum tíðina þar sem eini tilgangur minn með því var að
vera með stelpunum. Tók líka mín tímabil þar sem ég var að hringsóla stelpurnar
þó ég gæti ekki viðurkennt þetta fyrir sjálfri mér. Þegar ég var 28.ára vissi
ég orðið alveg hvað málið væri en átti erfitt með að viðurkenna þetta samt sem
áður. Foreldrar mínir eru af eldri kynslóðinni og mamma hefur aldrei farið
leynt með það hvað henni finnst um samkynhneigð. Í dag 4 árum seinna veit ég að
það er m.a. ein stæðsta ástæðan fyrir því að ég gat ekki viðurkennt þetta
algerlega sjálf þó ég hafi komið hálfvegis út sem tvíkynhneigð 25 ára fyrir vel
útvöldum (ef það er einhvern tíman hægt að koma hálfvegis út þá gerði ég það).

Ég aftur á
móti tók þá heimskulegu ákvörðun (í mínu tilviki tel ég hana heimskulega) að
segja ekki orð við foreldra mína fyrr en ég var búin að kynnast stelpu sem ég
vildi vera með og þegar svo að því kom um þrítugt, þá hefur það ekki verið
auðvelt fyrir móður mína að meðtaka þar sem hún þurfti að vinna í þessu með mig
í sambandi með annarri stúlku. Ég sé það algerlega í dag að ég hefði átt að
gefa henni meiri tíma en ég gerði. Sem dæmi bað hún mig um að kyssa ekki
kærustuna mína í fyrstu jólaboðunum þó systkinum mínum væri heimilt að kássast
og kjassast í sinum mökum einfaldlega því hún treysti sér ekki til að
sjá/upplifa lesbíska dóttur sína með.

Tveimur
árum síðar er þetta þó allt annað þrátt fyrir að mamma eigi alltaf örlítið
erfitt með þetta. Systir mín er minn stæðsti bakhjarl og bakkar mig upp við
mömmu þegar á þarf að halda. Ef ekki væri fyrir hana væri ég eflaust enn lokuð
í mínum þrönga skáp. Pabbi hefur aldrei virst kippa sér sérstaklega upp við
þetta og vílar ekki fyrir sér að grínast og fíflast með þetta. Ég get þó sagt
það að við það að koma út, sættast við kynhneigð mína og að ég verði aldrei
innan þessa "eðlilega ramma" hefur breytt ótrúlegu fyrir mína líðan.
Blaðinu var hreinlega snúið við, stelpan með hnútinn í maganum og brotnu
sjálfsmyndina er horfin og í stað hennar er komin þessi þokkalega örugga lesbía
í sambúð með yndislegri konu.

Barnið mitt
sem í dag er 11.ára á svona upp og ofan daga með þetta. Hún er virkilega sátt
við sambýliskonu mína svo í dag er þetta allt í góðum málum. En það hefur tekið
sinn tíma einnig vegna viðhorfa bekkjafélaga hennar gagnvart samkynhneigðum.

-32 ára
lesbía

 

Aftur efst á síðu

 

 

 

18 ára, transmaður

Frá því ég var lítill hefur mér alltaf
fundist ég vera öðruvísi. Ég vissi að ég var ekki eins og hinar stelpurnar en
ég gat ekki áttað mig á því hvað það var. Ég lék mér mikið með strákadót og ef
ég lék mér með dúkkur þá heimtaði ég alltaf að leika strákadúkkurnar. Það var í
raun leið fyrir mig til að vera strákur, í gegnum dúkkurnar. En svo þegar maður
eldist þá hætti maður að leika sér með dót og þá hafði ég enga leið til að vera
strákur. Það var líka um það leyti sem ég var að byrja á kynþroskanum. Mér leið
mjög illa á því tímabili. Líkaminn var að breytast í vitlausa átt og það var
mjög erfitt fyrir mig. Þá leitaði ég til internetsins, þar getur maður verið
hver sem maður vill. Ég bjó til accounts á samskipta-síðum og gat loksins verið
ég sjálfur. Auðvitað varð ég mjög háður internetinu og átti lítið félagslíf
fyrir utan netið.

Ég fann svo loksins út um transgender þegar
ég sá heimildamynd um það í sjónvarpinu. Þá var ég 14 ára. Ég vissi að þetta
væri eitthvað sem passaði við mig. Ég hafði alltaf vitað að ég væri fyrir
stelpur en mér fannst lesbía aldrei passa við mig. En þó ég væri loksins búinn að
finna það út að ég væri trans þá sagði ég ekki neinum. Mér fannst ég ennþá vera
svo ungur og hlutir gætu alveg breyst. Eftir að hafa hugleitt þetta í 4 ár þá
kom ég loksins út, þegar ég var alveg að verða 18 ára. Þá var ég bara búinn að
fá nóg, ég var við það að vera þunglyndur, átti fáa vini og ég gat ekki hugsað
mér að lifa sem stelpa lengur. Ég eyddi tveimur mánuðum í að skrifa langt og
mikið bréf til foreldra minna. Að gefa þeim bréfið er eitt af því erfiðasta sem
ég hef gert. Mamma sagði að henni hafi grunað þetta í langan tíma og pabbi
sagði að hann vill bara að ég sé ánægður og þau styðja mig 100%. Ég vissi að
þau myndu styðja mig en það var svo gott að þurfa ekki að ljúga að þeim lengur
og geta loksins verið ég sjálfur, sonur þeirra.

Það tók þau samt auðvitað tíma að venjast
nýju nafni og að kalla mig kk persónufornöfnum. Eftir sirka hálft ár var mamma
búin að ná þessu en það tók pabba aðeins lengri tíma. Í dag kalla þau mig
alltaf nafninu sem ég hef valið og nota rétt persónufornafn. Þeir vinir sem ég
átti tóku þessu misvel. Flestir óskuðu mér góðs gengis en nokkrir hurfu úr lífi
mínu. Þetta sýnir samt bara að þau voru ekki sannir vinir. Í dag hef ég aldrei
verið ánægðari og hef aldrei átt betri vini. Skólinn tók þessu líka vel,
kennararnir kalla mig réttu nafni og nemendurnir koma vel fram við mig.
Kennararnir segjast sjá mikla breytingu á mér eftir að ég kom út og að ég hafi
hreinlega bara blómstrað! Ég veit ekki hvar ég væri ef ég hefði ekki komið út
þegar ég gerði það. Ég væri ennþá þessi vansæla manneskja, líklega djúpt
sokkinn í þunglyndi og ætti enga alvöru vini.
-Nafnlaus 19 ára


Aftur efst á síðu

 

 

17 ára transkona

Ég er 18 ára stelpa sem fæddist í röngum líkama, sem þýðir að ég sé
transkona.Ég kom út fyrir mömmu minni þegar ég var 14 ára og 2 árum seinna
fyrir pabba mínum, og síðan fyrir öllum þegar ég var 17 ára og kynntist ég þá
fleirum í svipuðum sporum sem tóku mér mjög vel. Viðbrögð vina og ættingja kom
mér mjög á óvart, sérstaklegra sumra en líklega hafa flestir hugsað þetta sem
lausn á mínum andlegu vandamálum sem bæri það með sér að mér færi að líða betur
svo allir studdu mig í einu og öllu. Fyrir nokkrum árum leið mér mjög illa og
barðist við þunlyndi og vanlíðan og átti mjög fáa vini og hafði engann félagsskap
í skólanum og gerði allt ein og var oftast ein, nema þá bara með fjölskyldunni
og minni einu vinkonu á þeim tíma. Nú á ég nokkrar vinkonur og hef oftast
félagsskap og líður oftast mjög vel og hef oftast eitthvað að gera og það eitt
að fá að klæða sig og lýta út nákvæmlega eins og maður vill skiptir öllu og
hefur svakaleg áhrif á líðan fólks. Ég vona að þessi litla saga hafi orðið þér
að leiðarljósi og mögulega hjálpi þér að koma út úr skápnum.
-Nafnlaus, 18 ára

Aftur efst á síðu

 

19 ára transkona

 

"Ég veit eiginlega ekki hvar
eða hvernig mín saga byrjaði. Ætli hún hafi ekki byrjað alveg í upphafi, þrátt
fyrir að það hafi ekki komið í ljós fyrir en seinna. Sem krakki var ég mjög
mikið ein, og lék mér að mínum eigin hlutum. Ég bjó til persónur og veraldir í
mínum eigin hugarheimi sem myndi eflaust ekki teljast eðlilegar miðað við gildi
og venjur heimsins í dag. Eftir því sem ég varð eldri átti ég erfiðara með að
skilja heiminn og samfélagslegu gildin þegar kom að hvað kyn og kynhneigð væru.
Ég áttaði mig mjög fljótt á því að ég var ekki eins og flestir.

Á unglingsárunum spilaði ég
nettölvuleik þar sem þú gast búið til þína eigin persónu og hún var verið hver
sem þú vildir að hún væri. Þessi leikur gekk út á það að eiga samskipti við
fólk allastaðar úr heiminum sem höfðu búið til þeirra eigin persónur. Ég
sogaðist algjörlega inn í þennan netheim þar sem ég gat fengið að vera stelpan
sem ég vissi vel að ég var – það bara vissi það enginn annar.

Í hátt í 4 ár spilaði ég þennan
tölvuleik og ferðaðist erlendis reglulega til að hitta þetta fólk sem ég sjálf.
Þegar ég ferðaðist erlendis leið mér eins og ég fengi loksins að vera sú sem ég
vissi að ég var. Mér var tekið í samfélaginu sem konu. Kvenkyns einstaklingi.
Það þýddi ekkert meira fyrir mig í þessum heimi en sú tilfinning.

Þegar ég varð orðin 19 ára ákvað ég
að nú væri nóg komið. Ég gæti ekki haldið áfram þessum feluleik og ég ákvað að
leita mér hjálpar. Mér til mikillar óánægju og óþæginda voru
heilbrigðisstarfsmenn á Íslandi ekki aðeins lítið upplýstir heldur vissu þau
einfaldlega ekki neitt um transfólk. Ég man hversu reið ég var að hámenntað
fólk sem væri í vinnu til að hjálpa fólki vissi lítið sem ekkert um þetta og
kærðu sig einfaldlega kollót um transmálefni. Ég varð fyrir miklum vonbrigðum.

Í leit minni að einhverjum svörum
var ég svo heppin að komast í samband við aðra transkonu sem kom mér í samband
við rétta fólkið. Og hér stend ég í dag, búin að koma út fyrir 1 og hálfu
síðan, búin að ganga í gegnum hafnanir og því að fólk taki mig á sátt eins og
ég er. Búin að ganga í gegnum að heita nýju nafni og láta foreldra mína venjast
því líka. Búin að ganga í gegnum endalaus rifrildi við bæði fólk sem ég þekki
ekki og fólk sem er nákomið mér. En þegar ég hugsa um hver ég er í dag, þá
myndi ég ekki breyta neinu. Því þá væri ég líklega ennþá litla hrædda barnið
sem væri alltaf út af fyrir sig í sínum eigin heimi.

Ég hafði alltaf miklar áhyggjur af
viðbrögðum frá vinum og vandamönnum en ég átti mig á því að þau sem eru þess
virði að hafa áfram í lífi mínu eru þau sem taka manni eins og maður er. Það
getur tekið fólk langan tíma að venjast slíkum breytingum, alveg eins og það
tekur mann tíma að taka sjálfan sig í sátt. En þegar uppi er staðið, er það þú
og fólkið sem styður þig sem skiptir máli. Ekkert annað.  
-Ugla Stefanía Jónsdóttir, tvítug transkona."

 

Aftur efst á síðu

 

 

 

 

 

18 ára, hinsegin

Sumarið sem ég var 18 ára skráði ég
mig á Einkamál.is. Ég var ný hætt með kærastanum og langaði að kynnast fólki út
fyrir vinahópinn. Ég byrjaði á að skoða hvað aðrar stelpur væru að setja í
lýsingarnar sínar en fljótlega áttaði ég mig á því að ég var að fletta mikið
meira í gegnum lýsingar frá stelpum heldur en upphaflega stóð til. Hafði ég
kannski áhuga á að hitta stelpur líka? Já, af hverju ekki? Þetta var mitt
„aha-moment“ og viku síðar var ég búin að segja nánustu vinkonum mínum að ég
væri tvíkynhneigð.

Þetta var aldrei feimnismál og ég
átti ekki í neinum vandræðum með að segja vinum mínum. Ég sagði samt ekki
foreldrum mínum, hugsaði með mér að það kæmi sjálfkrafa seinna meir.

En hvernig átti ég að kynnast
hinsegin stelpum? Einu skiptin sem ég sá 2 stelpur saman voru jafnaldrar mínir
að slefa uppí hvor aðra á djamminu og glenna á sér brjóstaskorurnar framan í
myndavélar. Mér fannst ég ekki eiga neina samleið með þessum stelpum og þó ég
hafi verið frekar óhefluð í framkomu tók ég ekki þátt í slíku.

Ég daðraði við tilhugsunina að
kynnast kannski einhverri stelpu en féll stuttu síðar fyrir strák. Hann
gantaðist stundum með það að við færum í 3some en áttaði sig svo á því að mér
var alvara og hætti að grínast með þetta. Þess í stað hvatti hann mig til að
taka þátt í hinsegin stúdenta starfi en ég kunni ekki við það, var of feimin og
fannst ég ekki eiga heima þar á meðan ég ætti kærasta. Ef ég talaði um
kynhneigð var ég iðulega spurð hvernig ég vissi nokkuð um kynhneigð mína ef ég
hefði aldrei verið með stelpu. Mér fannst enginn taka því alvarlega lengur að
ég væri tvíkynhneigð. Ég lét mig dreyma um að taka þátt í hinsegin starfi á
meðan kærastinn væri úti í námi. Það var ekki þörfin að prufa að vera með
stelpu heldur löngun til að kynnast öðru hinsegin fólki, spjalla og deila
skoðunum á hinsegin málefnum.

Eftir 5 ára samband hætti ég með
kærastanum og sökkti mér nánast um leið útí allt það hinsegin félagslíf sem ég
vissi af. Þá gerðu allir ráð fyrir því að ég væri lesbía og hrisstu hausinn í
hvert sinn sem ég þrjóskaðist við að leiðrétta það. Það var mjög sárt að þurfa
sífelt að réttlæta sjálfa sig gagnvart tortryggni annarra. Hvernig væri að taka
mér bara eins og ég er? Með þrjóskunni hefur það þó tekist. Fæstir af mínum
nánustu flokka mig sérstaklega sem lesbíu eða gagnkynhneigða þó þeir sem þekki
mig minna geri það eflaust. Ég veit að ég mun alltaf þurfa að leiðrétta fólk og
koma aftur og aftur útúr skápnum í nýjum aðstæðum.  Með æfingunni verður
það auðveldara

Í dag flokka ég mig ekki lengur sem
tvíkynhneigða, finnst það of þröng skilgreining en það er önnur saga 😉
-Setta, 27 ára, pansexual, queer eða eitthvað í þá áttina. 

Aftur efst á síðu

 

 

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

Hafðu samband/Contact us

queer@queer.is
%d bloggurum líkar þetta: